Hólmbert á meðal markahæstu manna

Hólmbert Aron Friðjónsson að skora fyrir Aalesund.
Hólmbert Aron Friðjónsson að skora fyrir Aalesund. Ljósmynd/Aalesund

Fjölmargir Íslendingar voru á ferðinni í norsku knattspyrnunni í dag og ber þar hæst að Hólmbert Aron Friðjónsson heldur áfram að skora fyrir Aalesund í norsku B-deildinni.

Hólmbert skoraði þá annað mark liðsins í 2:2 jafntefli gegn Strømmen, en hann hefur nú skorað sex mörk í fyrstu átta leikjum sínum í deildinni með liðinu. Hólmbert spilaði allan leikinn í dag eins og Aron Elís Þrándarson, en Adam Örn Arnarson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik hjá Aalesund. Liðið er í efsta sæti með 20 stig. Orri Sigurður Ómarsson var einnig á ferðinni í B-deildinni en hann spilaði allan leikinn í vörn HamKam sem tapaði fyrir Kongsvinger 2:1. HamKam er í 13. sæti af 16 liðum.

Í úrvalsdeildinni máttu Íslendingaliðin Start og Sandefjord sætta sig við stórtöp. Start tapaði fyrir Sarpsborg 4:0 þar sem Kristján Flóki Finnbogason og Aron Sigurðarson spiluðu báðir allan leikinn með Start. Guðmundur Andri Tryggvason var ekki í leikmannahópi Start. Ingvar Jónsson var ónotaður varamarkvörður Sandefjord sem tapaði fyrir Odd, 5:0. Emil Pálsson spilaði allan leikinn með Sandefjord sem er ásamt Start í neðstu tveimur sætum deildarinnar.

Samúel Kári Friðjónsson spilaði svo fyrstu 62 mínúturnar með Vålerenga sem vann Stabæk 1:0. Þá er Matthías Vilhjálmsson enn frá vegna meiðsla hjá Rosenborg sem vann Lillestrøm 3:0 og er í öðru sæti deildarinnar með 21 stig, fimm stigum á eftir toppliði Brann.

mbl.is