Ronaldo-dagur í Tórínó

Cristiano Ronaldo er mættur í læknisskoðun.
Cristiano Ronaldo er mættur í læknisskoðun. Ljósmynd/@JuventusFC

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo er mættur til Tórínó á Ítalíu þar sem hann mun endanlega ganga frá félagsskiptum sínum frá Real Madrid til Juventus. 

Mikill fjöldi fólks var mættur fyrir utan æfingasvæði Juventus til að berja hann augum er hann mætti til að gangast undir læknisskoðun og í kjölfarið skrifa undir samning. Hann verður svo kynntur opinberlega á leikvangi félagsins síðar í dag. 

Juventus borgar Real Madrid um 100 milljónir evra fyrir Ronaldo, sem mun vera í treyju númer sjö hjá nýja liðinu. Juventus hefur notast við myllumerkið #CR7DAY í dag og er greinilega Ronaldo-dagur í Tórínó. 

mbl.is