Piqué er hættur

Gerard Piqué á fréttamannafundi í Barcelona í kvöld.
Gerard Piqué á fréttamannafundi í Barcelona í kvöld. AFP

Varnarmaðurinn reyndi Gerard Piqué, leikmaður Barcelona, staðfesti í kvöld að hann hefði ákveðið að hætta að spila með spænska landsliðinu í knattspyrnu.

Piqué er 31 árs gamall og hefur verið í stóru hlutverki hjá Spánverjum og orðið bæði heims- og Evrópumeistari með liðinu. Hann lék 102 landsleiki og skoraði í þeim fimm mörk.

Piqué var oft á tíðum umdeildur en hann er frá Katalóníu og hefur aldrei farið leynt með stuðning sinn við sjálfstæðisbaráttu héraðsins, ásamt því að fara ekki leynt með andúð sína í garð keppinauta Barcelona í Real Madrid.

Hann sagði við spænska fjölmiðla í kvöld að hann hefði rætt við Luis Enrique landsliðsþjálfara um þetta fyrir nokkrum dögum. „Hann hringdi í mig og ég sagði honum að ég væri fyrir löngu búinn að taka þessa ákvörðun og hefði hugsað málið vel og vandlega. Ég átti yndislegan tíma með landsliðinu þar sem ég fékk tækifæri til að verða heimsmeistari og Evrópumeistari. Nú vil ég helga Barcelona krafta mína. Ég á nokkur ár eftir hérna og ætla að njóta þeirra vel," sagði Piqué.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert