Rashford skúrkur Englendinga

Marcus Rashford fékk tvö mjög góð færi.
Marcus Rashford fékk tvö mjög góð færi. AFP

Króatía og England gerðu í kvöld markalaust jafntefli í fjórða riðli A-deildar Þjóðadeildarinnar á tómum Rujevica-velli í Rijeka. Marcus Rashford fékk tvö ákjósanleg færi fyrir enska liðið í seinni hálfleik. 

Króatar fengu ekki að selja miða á völlinn vegna refsingar fyrir ólæti stuðningsmanna. Stemningsleysið virtist fara með leikmenn framan af og var leikurinn vægast sagt rólegur í fyrri hálfleik. 

Síðari hálfleikurinn var mun skemmtilegri og fengu bæði lið fín færi til að skora og sérstaklega Rashford sem klúðraði tvisvar, einn á móti Dominik Livakovic, markmanni Króata. Eric Dier skaut í stöng, Harry Kane skallaði í slá og mark var dæmt af Kane fyrir rangstöðu. 

Króatar fengu einnig sín færi og var Ivan Perisic nálægt því að skora oftar en einu sinni. Inn vildi boltinn hins vegar ekki og fá liðin sitt hvort stigið. Spánn er á toppi riðilsins með sex stig og England og Króatía koma þar á eftir með eitt stig. 

mbl.is