Wolfsburg hrökk í gang í seinni hálfleik

Sara Björk Gunnarsdóttir í leiknum gegn Þór/KA í 32-liða úrslitum …
Sara Björk Gunnarsdóttir í leiknum gegn Þór/KA í 32-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í þýska liðinu Wolfsburg eru komnar með annan fótinn í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Wolfsburg tók á móti spænska liðinu Atlético Madrid í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitunum í kvöld og hafði betur 4:0. Staðan var markalaus í hálfleik en það tók Wolfsburg ekki nema eina mínútu að skora í seinni hálfleik og eftir það bætti liðið við þremur mörkum.

Danska landsliðskonan Pernille Harder skoraði tvö af mörkum Wolfsburg og þær Ewa Pajor og Caroline Graham Hansen skoruðu sitt markið hvor en mörkin fjögur komu á fyrstu 22 mínútunum í seinni hálfleik. Sara Björk lék allan tímann.

Sigríður Lára Garðarsdóttir kom ekkert við sögu með norska liðinu Lillestrøm sem gerði 1:1 jafntefli við danska liðið Brøndby á heimavelli. Sigríður Lára sat á varamannabekknum allan tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert