Birkir hækkaði um helming

Birkir fagnar marki með Aston Villa.
Birkir fagnar marki með Aston Villa. Ljósmynd/Aston Villa

Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, hækkaði tekjur sínar umtalsvert með því að færa sig frá þáverandi svissneska meistaraliðinu Basel til Aston Villa á Englandi í janúar á síðasta ári.

Þetta kemur fram í norskum fjölmiðlum þar sem fjallað var í gær um tekjur norsks íþróttafólks á árinu 2017.

Birkir flutti ellefu ára gamall frá Akureyri til Noregs með fjölskyldu sinni og hóf meistaraflokksferil sinn þar síðar með Viking í Stavanger. Síðan þá hefur Birkir leikið í Belgíu, Ítalíu, Sviss og nú Englandi. Samkvæmt Bergens Tidende er Birkir sá íþróttamaður „frá Rogalandi“, fjórða fjölmennasta fylki Noregs, sem hafði hæstar tekjur á síðasta ári, eða 19,1 milljón norskra króna fyrir skatt. Miðað við gengi gærdagsins nemur sú upphæð um 277 milljónum íslenskra króna. Þess má þó geta að gengi íslensku krónunnar gagnvart þeirri norsku var allt síðasta ár sterkara en nú. Segir BT að hjólreiðamaðurinn Alexander Kristoff komist næstur á eftir Birki meðal Rogalendinga, með 16,1 milljón norskra króna.

Bendtner vel fyrir ofan Matthías

Sé litið til tekjuyfirlits TV 2 frá árinu 2016, þegar Birkir lék með Basel, þá námu tekjur hans þá alls tæplega 12,5 milljónum norskra króna fyrir skatt. Hann var því með rúmlega helmingi hærri tekjur í fyrra.

Norskir fjölmiðlar gera talsvert úr því hve háar tekjur Nicklas Bendtner, danski framherjinn og vandræðagemsinn, hafi haft á síðasta ári en hann er leikmaður Rosenborg.

Bendtner er langtekjuhæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar en hafa ber í huga að hvorki tekjur Danans né Birkis eru endilega allar frá knattspyrnufélögum þeirra. Bendtner, sem nýverið var dæmdur í 50 daga fangelsi fyrir að ráðast á leigubílstjóra, var með tæpar 20 norskar milljónir í tekjur á síðasta ári, örlitlu meira en Birkir. Hluti teknanna er frá Nottingham Forest á Englandi þar sem hann var á mála þar til í mars í fyrra.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag