Tækifæri sem ég gat ekki látið fram hjá mér fara

Sverrir Ingi Ingason.
Sverrir Ingi Ingason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta tókst á endanum og það náðist að klára þetta á síðustu stundu,“ sagði landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason í samtali við mbl.is í morgun en Sverrir skrifaði seint í gærkvöld undir þriggja og hálfs árs samning við gríska úrvalsdeildarliðið PAOK sem er frá borginni Thessaloniki í norðurhluta Grikklands.

„Mér líst bara virkilega vel á þetta. Þetta er frábær og skemmtilegur staður í Grikklandi og PAOK er stórt félag hér í Grikklandi. Liðið er í toppsæti deildarinnar og ætlar sér stóra hluti heima fyrir og í Evrópukeppninni. Mér fannst þetta tikka inn í mörg box og mig langar á mínum ferli að taka þátt í Evrópukeppni og reyna að vinna einhverja bikara fyrir topplið. Ég fæ það tækifæri núna og ég ákvað því að slá til. Ég var vissulega mjög ánægður í Rostov og leið vel þar en þetta var tækifæri sem ég gat ekki látið fram hjá mér fara,“ sagði Sverrir Ingi.

Ætla að reyna að festa mig í sessi sem lykilleikmaður

Sverrir er þar með á leið í sitt sjötta land sem meistaraflokksleikmaður. Hann hefur nú leikið í efstu deildum á Íslandi, í Noregi, Belgíu, á Spáni og í Rússlandi, og skorað mark eða mörk í
þeim öllum. Hann hefur leikið með Rostov frá árinu 2017.

„Það er mikil spenna í kringum klúbbinn núna enda hefur hann ekki unnið gríska meistaratitilinn í einhver 34 ár. Það verður gaman að taka þátt í þessu og vonandi tekst liðinu að vinna titilinn. Ég kem inn núna tilbúinn að hjálpa liðinu til þess að reyna að hjálpa því til að ná markmiðum sínum fyrir þetta tímabil. Í kjölfarið ætla ég að reyna að festa mig í sessi sem lykilleikmaður og eiga farsælan tíma hér í Grikklandi,“ sagði Sverrir.

Sverrir Ingi Ingason.
Sverrir Ingi Ingason. Ljósmynd/PAOK

PAOK, sem er með átta stiga forskot í toppsæti deildarinnar á Olympiacos, mætir meisturunum í AEK í deildinni á sunnudaginn.

„Ég veit ekki alveg á þessari stundu hvort ég verð orðinn löglegur fyrir leikinn á sunnudaginn en ég fæ að vita það þegar ég fer á fyrstu æfinguna á eftir. Við eigum svo bikarleik á móti Panionios á miðvikudag og svo er risaslagur á móti Olympiacos um næstu helgi. Maður fer því beint inn í alvöruprógramm og næstu dagar og vikur verða mikilvægar upp á framhaldið að gera. Það verður skemmtilegt að byrja á þessu,“ segir Sverrir.

Varnarleikurinn hefur ekki verið vandamál hjá PAOK á tímabilinu en í 18 leikjum í deildinni hefur það aðeins fengið á sig 7 mörk.

„Ég er keyptur inn sem framtíðarsýn. Það eru einhverjir leikmenn sem eru að renna út á samningi í sumar og PAOK vildi auka breiddina fyrir restina af tímabilinu.“

Staður sem ég get alveg séð fyrir mér að vera lengi á

Um samanburðinn á rússnesku deildinni og þeirri grísku segir Sverrir:

„Það er erfitt að segja til um það. Ég held að þetta séu mjög ólíkar deildir. Í Rússlandi er þetta svolítið taktískt og varnarsinnað en í Grikklandi er meira um sóknarleik og leikirnir eru opnari en í Rússlandi. Vonandi verð ég bara eins fljótur og hægt er að aðlaga mig þessari deild. Ég hef verið að taka minni skref í gegnum minn feril og hef ekki verið að taka of stór skref. Ég held að það hafi hjálpað mér að ég sé kominn á þennan stað.

Mér finnst ég vera tilbúinn á þessum aldri að vera kominn í stórlið í sterkri deild sem vill berjast um meistaratitla og að spila í Evrópukeppni. Ég er búinn að ná mér í reynslu og þetta er staður sem ég get alveg séð fyrir mér að vera lengi á. Leikmenn hafa talað um að þeim líði vel hérna og vilji alls ekki fara. Vonandi er þetta staður sem ég get stoppað aðeins lengur á en á hinum stöðunum. En það er afar erfitt þegar koma spennandi tilboð upp á borðið þar sem maður fær tækifæri til að spila á hærra stigi og í betra liði,“ sagði Sverrir, sem verður 26 ára gamall í ágúst. Hann verður í treyju númer 4 hjá PAOK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert