Emil nýtir sér æfingaaðstöðu Udinese

Emil Hallfreðsson í baráttunni við Eden Hazard í leik Íslands …
Emil Hallfreðsson í baráttunni við Eden Hazard í leik Íslands og Belgíu í Þjóðadeildinni á Laugardaslvelli í september á síðasta ári. mbl.is/Eggert

Knattspyrnumaðurinn Emil Hallfreðsson er að jafna sig á hnémeiðslum en hann er nú staddur í endurhæfingu hjá sínu fyrrverandi félagi, Udinese á Ítalíu, en þetta staðfesti leikmaðurinn í samtali við fótbolta.net í dag.

Emil fór í aðgerð á hné í desember en hann rifti samningi sínum við ítalska A-deildarliðið Frosinone í janúar á þessu ári. Emil gekk til liðs við Frosinone frá Udinese síðasta sumar en hann lék með Udinese á árunum 2016 til ársins 2018.

„Udinese bauð mér að koma til sín og vera í endurhæfingu þar til ég komist í stand. Hér er allt til alls og ég fæ að nota þeirra aðstöðu. Þetta var vel boðið hjá þeim og ég ákvað að nýta mér þetta,“ sagði Emil við Fótbolta.net í dag. 

Emil er án félags eins og sakir standa en hann ætlar að einbeita sér að því að ná sér góðum af meiðslunum, áður en hann snýr aftur á knattspyrnuvöllinn.

„Ég hef tíma til 28. febrúar til að semja við lið á Ítalíu. Í öðrum löndum er lengri tími. Ég ætla að sjá hvað gerist. Það sem skiptir mestu máli er að ná sér 100% af þessum hnémeiðslum til að ég geti spilað fótbolta á góðu leveli næstu árin,“ sagði Emil í samtali við fótbolta.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert