Hætt við útsendingu því dómarinn er kona

Barbara Steinhaus varð haustið 2017 fyrsta konan til að dæma …
Barbara Steinhaus varð haustið 2017 fyrsta konan til að dæma í efstu deild karla í Þýskalandi. AFP

Íranskir sjónvarpsáhorfendur fengu ekki að sjá leik Bayern München og Augsburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu á föstudagskvöld vegna þess að dómari leiksins var kvenkyns.

Frá þessu greinir fjöldi þýskra miðla, meðal annars Bild og Süddeutsche Zeitung. Þar segir að forráðamönnum írönsku sjónvarpsstöðvarinnar IRIB hafi ekki þótt við hæfi að hin 39 ára gamla Bibiana Steinhaus, sem fyrst dæmdi í efstu deild karla í Þýskalandi árið 2017, sæist hlaupa um á stuttbuxum.

„Á grundvelli strangra íslamskra gilda sýnar íranskar sjónvarpsstöðvar ekki myndir af frjálslega klæddum konum, svo sem í stuttbuxum. Slík atriði eru ritskoðuð í bíómyndum. Úr því að Steinhaus hefði verið mikið í mynd hefði ekki verið hægt að klippa hana út og því var hætt við útsendinguna,“ segir í Süddeutsche Zeitung.

Bayern fagnaði sigri gegn Augsburg í hörkuleik, 3:2, eftir að hafa tvívegis lent undir í leiknum. Bayern er þar með tveimur stigum á eftir Dortmund í baráttu um þýska meistaratitilinn. Augsburg er fjórum stigum frá fallsæti en liðið lék án Alfreðs Finnbogasonar sem er meiddur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert