Viðar á leiðinni til Kazan

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt bendir til þess að Viðar Örn Kjartansson landsliðsmaður í knattspyrnu gangi til liðs við Rubin Kazan í rússnesku úrvalsdeildinni sem lánsmaður frá Rostov.

Ólafur Garðarsson umboðsmaður staðfesti við mbl.is að viðræður væru langt komnar milli félaganna. Hann sagði að Hammarby í Svíþjóð hefði teygt sig langt til að reyna að halda Viðari í sínum röðum. „En það er orðið nánast víst að hann fari til Kazan, enda þótt það sé aldrei hægt að fullyrða neitt fyrr en allt er í höfn. Ég reikna með því að það verði gengið frá þessu á morgun,“ sagði Ólafur við mbl.is.

Viðar hefur verið í láni frá Rostov hjá Hammarby frá byrjun tímabilsins í Svíþjóð og skoraði í gærkvöld sitt sjöunda mark í fimmtán leikjum þegar hann tryggði Stokkhólmsliðinu sigur á Sundsvall, 3:2, með marki á síðustu mínútunni.

Rostov keypti hann af Maccabi Tel Aviv í ágúst 2018 en Viðar fékk fá tækifæri með rússneska liðinu og kom aðeins  við sögu í sjö leikjum fyrir áramótin.

Rubin Kazan gerði 1:1 jafntefli við Lokomotiv Moskva á útivelli í fyrstu umferð rússnesku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi. Liðið endaði í ellefta sæti af sextán liðum á síðustu leiktíð, tveimur sætum og fimm stigum á eftir Rostov. Ragnar Sigurðsson lék með Rubin Kazan fyrri hluta tímabilsins 2017-18 en fór þaðan til Rostov á miðju tímabili.

mbl.is