Áfall fyrir Barcelona

Luis Suárez verður frá næsta mánuðinn vegna meiðsla í kálfa.
Luis Suárez verður frá næsta mánuðinn vegna meiðsla í kálfa. AFP

Luis Suárez og Ousmane Dembélé, sóknarmenn spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, verða báðir frá næstu vikurnar vegna meiðsla en þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér.

Suárez fór meiddur af velli í 1:0-tapi liðsins gegn Athletic Bilbao í opnunarleik spænsku 1. deildarinnar um síðustu helgi en framherjinn haltraði af velli á 37. mínútu. Suárez er tognaður í kálfa og verður því ekki með liðinu næsta mánuðinn.

Þá verður Dembélé frá næstu fimm vikurnar vegna meiðsla aftan í læri. Dembélé var í byrjunarliði Barcelona gegn Athletic Bilbao og spilaði allan leikinn en hann hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði frá því hann kom til félagsins frá Borussia Dortmund haustið 2017.

mbl.is