Óvæntur sigur Söndru og félaga gegn Bayern

Sandra María Jessen í leik með Leverkusen.
Sandra María Jessen í leik með Leverkusen.

Sandra María Jessen og stöllur hennar í Bayer Leverkusen unnu óvæntan 2:1-útisigur gegn stórliði Bayern München í þýsku efstu deildinni í knattspyrnu í dag. Þá kom Sara Björk Gunnarsdóttir við sögu í öruggum heimasigri Wolfsburg.

Þær Henriette Csiszar og Milena Nikolic komu báðar Leverkusen yfir en þar á milli jafnaði Kathrin Hendrich metin fyrir heimakonur. Sandra María byrjaði leikinn á varamannabekknum en kom inn á á 70. mínútu.

Sara Björk hóf einnig daginn í varamannabekknum en kom inn á á 78. mínútu er Wolfsburg vann þægilegan 3:0-heimasigur gegn Hoffenheim. Pernille Harder skoraði tvö mörk og þar á milli gerði Ewa Pajor eitt.

Wolfsburg er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir en Leverkusen er í 7. sæti með sex stig.

Rakel Hönnudóttir spilaði rúmlega tíu mínútur með Reading sem tapaði 2:0 gegn Manchester City á heimavelli í ensku úrvalsdeild kvenna. Rakel kom inn á á 79. mínútu en þetta var annar leikur liðsins á tímabilinu. Reading vann 1:0-útisigur gegn Liverpool í fyrstu umferðinni og kom Rakel þá einnig við sögu af bekknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert