Mikil samstaða eftir að Marega gekk af velli

Leikmenn beggja liða reyna að fá Moussa Marega til að …
Leikmenn beggja liða reyna að fá Moussa Marega til að hætta við að ganga af velli. AFP

Moussa Marega, 28 ára gamall knattspyrnumaður frá Malí, hefur vakið gríðarlega athygli á kynþáttaníði í portúgölsku knattspyrnunni eftir að hann  gekk af velli í leik Porto og Vitoria Guimaraes í gær.

Porto sótti þá Vitoria heim og Marega skoraði sigurmark Porto eftir klukkutíma leik, 2:1. Níu mínútum síðar gekk hann af velli, benti á stuðningsmenn Vitoria með þumalfingurna niðri og sendi þeim jafnframt kveðju með löngutöng.

Leikmenn beggja liða reyndu að fá Marega til að skipta um skoðun og halda áfram leik en hann hristi þá af sér og gekk til búningsherbergja. 

Hluti stuðningsmanna Vitoria hafði sýnt af sér kynþáttaníð í garð Marega með hrópum og bendingum allt frá því í upphituninni fyrir leikinn. Hann lék með liðinu sem lánsmaður einn vetur, 2016-17, og skoraði þá 15 mörk í 25 leikjum fyrir Vitoria.

Framganga hans hefur vakið upp mikla bylgju gegn kynþáttaníði í portúgölsku knattspyrnunni frá því í gær og leikmenn og stuðningsmenn liða um allt landið hafa lýst yfir samstöðu með Marega og lofað hann fyrir hugrekki.

Marega skrifaði á Instagram eftir leikinn að stuðningsmenn Vitoria sem kæmu á völlinn til að beita leikmenn kynþáttaníði væru fávitar.

Á myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá Marega ganga af velli:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert