Chelsea átti ekki möguleika gegn Bayern

David Alaba og Olivier Giroud eigast við í kvöld.
David Alaba og Olivier Giroud eigast við í kvöld. AFP

Bayern München vann sannfærandi 3:0-útisigur á Chelsea í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. Bayern var miklu sterkari aðilinn allan leikinn og var sigurinn verðskuldaður. 

Bayern fékk nokkur góð færi í fyrri hálfleik en Willy Caballero í marki Chelsea varði tvisvar vel frá Robert Lewandowski og Thomas Müller skallaði í slá. Chelsea hélt hins vegar út og var staðan í hálfleik markalaus. 

Góð spilamennska Bayern hélt áfram í seinni hálfleik og fyrsta markið kom á 51. mínútu. Robert Lewandowski gerði þá vel í að fara upp vinstri kantinn og gefa fyrir markið á Serge Gnabry sem skoraði auðvelt mark. 

Þeir voru aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar þegar þeir spiluðu vel saman og Gnabry slapp í gegn og tvöfaldaði forskot Bayern. Þýska liðið var ekki hætt því á 76. mínútu var komið að Lewandowski að skora. Það gerði hann eftir glæsilegan undirbúning Alphonso Davies. 

Vont varð verra fyrir Chelsea því Marcos Alonso fékk beint rautt spjald fyrir að slá Lewandowski í andlitið og lék Chelsea því síðustu sjö mínúturnar manni færri. Bayern bætti hins vegar ekki við mörkum og 3:0-sigur varð staðreynd. 

Á ítalíu skildu Napoli og Barcelona jöfn, 1:1. Dries Mertens kom Napoli í forystu eftir hálftíma leik og var staðan í leikhléi 1:0. Barcelona byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og skoraði verðskuldað jöfnunarmark á 57. mínútu er Antoine Griezmann kom boltanum í markið og þar við sat. 

Síðari leikir einvígjanna fara fram 18. mars. 

Napoli - Barcelona 1:1
Mertens 30. - Griezmann 57.

Lionel Messi með boltann í kvöld.
Lionel Messi með boltann í kvöld. AFP
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Chelsea 0:3 Bayern opna loka
90. mín. Leik lokið Bayern miklu sterkari í kvöld. Verðskuldaður þriggja marka sigur.
mbl.is