Ronaldo og félagar taka á sig launalækkun

Cristiano Ronaldo, lengst til hægri, og aðrir leikmenn Juventus hafa …
Cristiano Ronaldo, lengst til hægri, og aðrir leikmenn Juventus hafa samþykkt að taka á sig launalækkun. AFP

Leikmenn og þjálfarar ítalska knattspyrnurisans Juventus hafa samþykkt að taka á sig launalækkun næstu fjóra mánuðina á meðan kórónuveiran herjar á Ítalíu og allan heiminn.

Í tilkynningu frá félaginu segir að þjálfarar og leikmenn, þar á meðal aðalþjálfarinn Maurizio Sarri og Cristiano Ronaldo, muni taka á sig launalækkun í mars, apríl, maí og júní. Mun þetta spara félaginu um 90 milljónir evra og koma til móts við það tap sem verður af því að enginn fótbolti er spilaður um þessar mundir. Juventus borgar um 270 milljónir í laun á ári og sparast því þriðjungur með þessari lækkun.

Tuttusport greindi frá því fyrr í dag að Giorgio Chiellini, fyrirliði liðsins, hafi sannfært liðsfélaga sína um að taka á sig launalækkunina. Chiell­ini, sem nú er í sótt­kví líkt og aðrir liðsfé­lag­ar hans eft­ir að þrír leik­menn aðalliðsins greind­ust með veiruna, sannfærði liðsfé­laga sína með mynd­bands­s­ím­tali. Chiell­ini byrjaði á því að heyra í þeim Leon­ar­do Bonucci, Gi­anluigi Buffon og Cristiano Ronaldo sem samþykktu ein­róma að lækka laun sín.

Fari svo að hægt verði að halda áfram með tímabilið á næstu mánuðum mun félagið semja upp á nýtt við leikmenn og þjálfara og greiða þeim laun eftir því. Að lokum þakkar félagið starfsfólki sínu fyrir að sýna ástandinu skilning.

Ítölsku meistararnir hafa þrjá leikmenn innanborðs sem hafa greinst með veiruna, þá Daniele Rugani, Blaise Matuidi og Paulo Dybala, en Ítalía er það land sem hefur orðið fyrir versta högginu í Evrópu. Yfir tíu þúsund hafa látið lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert