Sumir reyna að notfæra sér ástandið

Louis van Gaal stýrði Manchester United á Englandi um árabil.
Louis van Gaal stýrði Manchester United á Englandi um árabil. AFP

Sum knattspyrnufélög eru að reyna að notfæra sér ástandið sem ríkir vegna kórónuveirufaraldursins sem nú herjar á heimsbyggðina. Þetta sagði Louis van Gaal í viðtali við hollenska miðilinn AG.

Van Gaal er 68 ára og sestur í helgan stein en hann stýrði meðal annars Barcelona, Bayern München, Manchester United og hollenska landsliðinu á glæstum ferli sem knattspyrnustjóri. Hollendingurinn er ekki þekktur fyrir að sitja á skoðunum sínum og gagnrýnir hann harðlega þau félög sem, að hans mati, eru að reyna að notfæra sér ástandið.

„Í íþróttum er sigurvegari krýndur á keppnisvellinum, það þarf því að klára tímabilið,“ sagði van Gaal og sneri sér að deildinni í heimalandinu sem dæmi. „Við getum ekki sagt, eftir aðeins 25 umferðir, að Ajax sé meistari þegar fjórðungur er eftir af tímabilinu. Allir sannir íþróttamenn eru sama sinnis.“

„Þeir sem vilja ekki keppa meira eru liðin sem eru í vænlegri stöðu sem stendur, í Evrópusætum eða fyrir ofan fallsæti. Þessi félög vilja notfæra sér ástandið í heiminum og hagnast á því. Þau halda því svo fram að þeim sé bara annt um lýðheilsuna. Ég tek ekki þátt í þessu.“

mbl.is