Um 90 prósent dómara styðja Real Madrid

Real Madrid nýtur gríðarlegra vinsælda um allan Spán, nema í …
Real Madrid nýtur gríðarlegra vinsælda um allan Spán, nema í Katalóníu. AFP

Gamalreyndur knattspyrnudómari á Spáni segir að um 90 prósent allra dómara í landinu séu á bandi Real Madrid og á því séu eðlilegar skýringar.

Eduardo Iturralde dæmdi um 300 leiki í efstu deild Spánar áður en hann lagði flautuna á hilluna fyrir átta árum. Hann sagði í viðtali við útvarpsstöðina Cadena Ser að stór hluti Spánverja haldi með Real Madrid frá unga aldri og það skili sér að sjálfsögðu inn í raðir dómara.

„Um það bil 90 prósent styðja Real Madrid og 10 prósent Barcelona. Hvort sem stuðningsfólki Barca líkar það eða ekki þá styðja 70 prósent Spánverja, utan Katalóníu, lið Real Madrid. Í dag eru fleiri sem halda með Barca vegna þess að unga kynslóðin hefur séð liðið vinna titla. En hve margir á öllum Spáni héldu með Real Madrid áður en Lionel Messi kom til sögunnar? Um sjötíu prósent,“ sagði Iturralde, sem sjálfur kvaðst standa utan við þetta enda Baski og frá Bilbao þar sem Athletic Bilbao er hans lið.

„Ég er heppinn að hafa fæðst í Bilbao. Hér halda allir með Athletic. En annars staðar á Spáni halda flestir með Real Madrid og Barcelona því það eru liðin sem vinna. Þannig er þetta. Og meirihlutinn styður Real Madrid,“ sagði dómarinn.

mbl.is