Giggs fær innblástur frá Liverpool

Ryan Giggs.
Ryan Giggs. AFP

Manchester United goðsögnin Ryan Giggs viðurkennir að hann sækir innblástur til erkifjendanna í Liverpool þegar kemur að starfi hans sem landsliðsþjálfari Wales.

Giggs, sem er leikjahæsti leikmaður United frá upphafi, segist ekki að því geta gert að hann dáist að liði Liverpool sem hefur verið frábært undanfarin ár. Lærisveinar Jürgen Klopp eru ríkjandi Evrópumeistarar og langefstir í ensku úrvalsdeildinni.

„Það er erfitt fyrir mig að segja það, sem United-maður, en Liverpool hefur verið frábært lið í ár. Þeir munu vinna deildina undir Klopp og eiga það skilið, það er gaman að horfa á þá spila fótbolta,“ sagði Giggs í samtali við Sky Sports en hann hefur þjálfað landslið Wales síðan 2018 eftir að hafa spilað 64 landsleiki fyrir þjóðina á árum áður.

„Það eru hlutir sem ég reyni að taka frá leikstíl Liverpool sem ég vil að leikmenn mínir hjá Wales nýti sér. Ég vona að United nái þeim en þeir eiga hrós skilið, Liverpool hefur verið frábært undanfarið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert