Missti af leik í fyrsta skipti í 26 mánuði

Ögmundur Kristinsson hefur átt fast sæti í liði Larissa í …
Ögmundur Kristinsson hefur átt fast sæti í liði Larissa í langan tíma. Ljósmynd/Larissa

Ögmundur Kristinsson landsliðsmarkvörður í knattspyrnu missti í dag af leik með félagsliði sínu í fyrsta skipti síðan í apríl árið 2018, eða í hálfan 27. mánuð.

Ögmundur var varamarkvörður Larissa í grísku A-deildinni í dag þegar liðið beið lægri hlut fyrir Atromitos, 3:0. Hann hafði spilað alla leiki liðsins í deildinni frá því hann kom þangað sumarið 2018, samtals 59 leiki, ásamt því að spila  fjóra síðustu leiki tímabilsins 2017-18 með Excelsior í hollensku úrvalsdeildinni. Ögmundur var því síðast utan byrjunarliðs 6. apríl 2018. 

Leikurinn í dag skipti Larissa litlu máli. Liðið endaði í neðri hluta deildarinnar eftir 26 umferðir og fór því í fallkeppni átta neðstu liðanna á meðan sex efstu héldu áfram að spila um meistaratitilinn. Larissa er í þægilegri stöðu, í þriðja sæti af þessum átta neðri liðum og langt fyrir ofan fallsætin tvö og því væntanlega verið talið upplagt að gefa varamarkverði Ögmundar tækifæri í þessum leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert