Gef alltaf 110 prósent í allt sem ég geri á vellinum

Ísak Snær Þorvaldsson
Ísak Snær Þorvaldsson Ljósmynd/St.Mirren

Ísak Snær Þorvaldsson, 19 ára Mosfellingur, gekk á dögunum til liðs við skoska knattspyrnufélagið St. Mirren að láni frá Norwich á Englandi. Ísak samdi við Norwich árið 2017 og hefur leikið með unglingaliðum félagsins. Er þetta í annað skipti sem Ísak er lánaður frá Norwich en hann lék með Fleetwood í ensku C-deildinni eftir áramót.

„Þetta er búið að vera á borðinu síðan í janúar, þá hafði St. Mirren fyrst áhuga á mér, en þá endaði ég á því að fara til Fleetwood. Þeir sýndu mér svo aftur áhuga fyrir þetta tímabil og ég ákvað að slá til. Ég vissi í rauninni ekki mikið um liðið og skosku úrvalsdeildina en það var einn leikmaður úr Norwich hjá St. Mirren á síðustu leiktíð og hann talaði vel um klúbbinn, fékk mikinn spilatíma og gaf þessu góð meðmæli,“ sagði Ísak í samtali við Morgunblaðið. Hann er hrifinn af St. Mirren til þessa. „Þetta er mjög flott, þetta er ekki stærsta æfingasvæði í heimi en þetta gerir sitt. Völlurinn er mjög flottur, borgin er flott og þetta lítur mjög vel út. Leikmannahópurinn er góður líka.“

Ísak ætlar sér að komast í byrjunarlið St. Mirren og heilla í leiðinni forráðamenn Norwich, en enska liðið féll úr úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og niður í B-deildina. „Norwich hefur möguleikann á að kalla mig til baka í janúar og markmiðið mitt er að fá að spila núna og sanna fyrir Norwich að ég sé nógu góður í Championship-deildina [ensku B-deildina].“

Heppinn að hafa fjölskylduna

Var Ísak aðeins sextán ára gamall þegar hann fór til Norwich frá Aftureldingu. Hann viðurkennir að það hafi verið erfitt fyrst um sinn að yfirgefa heimahagana í Mosfellsbæ, en það hafi hjálpað til að hafa fjölskyldu og íslenska vini með í för. „Þetta var erfitt fyrstu 1-2 árin en ég var mjög heppinn að vera með fjölskylduna, hún flutti út með mér og það hjálpaði mjög mikið. Svo komu Ágúst Hlynsson og Atli Barkarson, það hjálpaði líka mjög mikið,“ sagði Ísak en bæði Ágúst og Atli leika nú með Víkingi Reykjavík.

Ísak fór að láni til Fleetwood í janúar, en lék aðeins tvo leiki í C-deildinni, þar sem deildinni var að lokum aflýst vegna kórónuveirunnar. Hinn skrautlegi Joey Barton er knattspyrnustjóri Fleetwood en hann var gríðarlega harður í horn að taka sem leikmaður á sínum tíma og lét oft skapið hlaupa með sig í gönur. Íslenski unglingalandsliðsmaðurinn ber Barton söguna vel.

Lenti ekki í Joey Barton

„Það var mjög skemmtilegt að spila fyrir Barton og hann er klár. Hann veit mikið um fótbolta og er mjög góður þjálfari, en hann á það til að missa skapið. Það sást í einum leik, en hann er mjög góður þjálfari,“ sagði Ísak og viðurkennir að Barton hafi látið menn heyra það, ef þeir áttu það skilið. „Ég var heppinn að ég lenti ekki í honum sjálfur, en ég sá þegar hann hraunaði yfir aðra leikmenn.“

Viðtalið við Ísak má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert