Tapið nemur um tvö þúsund milljörðum

Fótboltinn í Suður-Ameríku hefur farið illa út úr kórónuveirukreppunni en …
Fótboltinn í Suður-Ameríku hefur farið illa út úr kórónuveirukreppunni en hér eigast við lið Santos frá Brasilíu og Olimpia frá Paragvæ. AFP

Talið er að félagslið í knattspyrnu hafi tapað samtals um 14,4 milljörðum dollara, eða tæplega tvö þúsund milljörðum íslenskra króna, á útbreiðslu kórónuveirunnar um heimsbyggðina síðasta hálfa árið.

Þetta  segir Olli Rehn, formaður nefndar hjá FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu, sem vinnur í úrlausnum fyrir félög og knattspyrnusambönd víðsvegar um heim vegna ástandsins.

„Þetta er risahá upphæð og nær yfir fjármagnið í knattspyrnuheiminum, ef undan eru skilin verkefni landsliða. Talan getur aldrei orðið nákvæm, en þetta er áætlað tekjutap hjá 211 knattspyrnusamböndum um allan heim," sagði Rehn við The Guardian.

FIFA áætlar að heimstekjur félagsliða í fótboltanum nemi um 40-45 milljörðum dollara árlega og nú séu um 14,4 milljarðar horfnir af þeirri köku.

„Evrópsk félög hafa tapað mestu ef litið er á upphæðirnar í heild sinni, en hlutfallslegt tap annars staðar er mikið meira, sérstaklega í rómönsku Ameríku og einkum í Brasilíu. Minni þjóðir sem eru háðar FIFA um fjármagn verða í raun fyrir minnsta  skaðanum. Tapið er of mikið í heild sinni til að FIFA ráði við það eitt síns liðs. Við erum í nánu samstarfi við álfusamböndin um að reyna að bæta stöðuna," sagði Rehn sem áður stýrði stærsta banka Finnlands og átti sæti í stjórn Evrópusambandsins.

mbl.is