Alfons og félagar skutu stórliðinu skelk í bringu

Tyrkinn Hakan Calhanoglu skoraði tvö marka AC Milan í kvöld.
Tyrkinn Hakan Calhanoglu skoraði tvö marka AC Milan í kvöld. AFP

Alfons Sampsted og samherjar hans í norska knattspyrnuliðinu Bodö/Glimt létu ítalska stórliðið AC Milan svo sannarlega hafa fyrir hlutunum þegar liðin mættust á San Síró í Mílanó í kvöld í þriðju umferð Evrópudeildarinnar.

Kasper Junker kom Bodö/Glimt yfir eftir 15 mínútna leik en AC Milan, án Zlatans Ibrahimovic sem greindist með kórónuveiruna fyrr í dag, náði að komast yfir hlé með mörkum frá Hakan Calhanoglu og Lorenzo Colombo.

Calhanoglu bætti við marki í byrjun  síðari hálfleiks, 3:1, en Alfons og félagar svöruðu strax fyrir sig. Jens Hauge minnkaði muninn í 3:2 fimm mínútum síðar og það urðu svo lokatölurnar.

Alfons lék fyrstu 83 mínúturnar með Bodö/Glimt sem er með algjöra yfirburði í norsku úrvalsdeildinni í ár og hefur ekki tapað leik.

AC Milan mætir Rio Ave á útivelli í Portúgal í umspilinu um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar næsta fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert