Þrettán smitaðir í liðinu og enginn leikur hjá Ara

Ari Freyr Skúlason og Thomas Meunier í leik Íslands og …
Ari Freyr Skúlason og Thomas Meunier í leik Íslands og Belgíu í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert verður af því að Ari Freyr Skúlason og samherjar hans í belgíska knattspyrnuliðinu Oostende sæki lið Waasland-Beveren heim í A-deildinni þar í landi í kvöld eins og til stóð.

Hvorki fleiri né færri en þrettán leikmenn Waasland-Beveren, ásamt þremur úr starfsliði, hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni. Samkvæmt belgískum reglum er leikjum frestað ef sjö leikmenn eða fleiri úr einu liði greinast með veiruna.

Oostende gaf út á sama tíma að eftir skimun í herbúðum liðsins hefði ekkert smit greinst þar.

Þetta er fyrsti leikurinn í deildinni sem frestað er af þessum sökum á yfirstandandi tímabili. Þetta átti að vera síðasti leikurinn í níundu umferð en Oostende er í ellefta sæti af átján liðum með 12 stig og hefði komist í sjötta sætið með sigri í kvöld. Waasland-Beveren er næstneðst með 4 stig.

mbl.is