Kristófer skoraði tvö í ótrúlegri endurkomu

Kristófer Ingi Kristinsson.
Kristófer Ingi Kristinsson. mbl.is/Hari

Kristófer Ingi Kristinsson átti frábæra innkomu í lið Jong PSV sem nældi í 3:3-jafntefli á útivelli gegn Maastricht í hollensku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Kristófer kom inn af varamannabekknum á 61. mínútu og var útlitið þá orðið svart fyrir gestina sem voru þremur mörkum undir. Sóknarmaðurinn ungi, sem er á láni frá Grenoble í Frakklandi, lét hins vegar að sér kveða. Hann minnkaði muninn á 66. mínútu og eftir að liðsfélagi hans bætti við marki tókst Íslendingnum unga að jafna metin á 83. mínútu með öðru marki sínu.

PSV er í 14. sæti með 14 stig eftir 11 leiki. Kristófer er samningsbundinn liðinu út tímabilið og þá er PSV með for­kaups­rétt á honum næsta sumar.

mbl.is