Segi ekki bara já við hverju sem er

Arnór Ingvi Traustason í landsleik.
Arnór Ingvi Traustason í landsleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnór Ingvi Traustason landsliðsmaður í knattspyrnu kveðst hugsa fyrst og fremst um að leika áfram með Malmö þó sá möguleiki hafi komið upp að hann færi annaðhvort til Bandaríkjanna eða Ítalíu.

Eins og fram kom í Kvällsposten í Svíþjóð í gær hefur bandaríska félagið New England Revolution sýnt mikinn áhuga á Arnóri og sömuleiðis ítalska B-deildarfélagið Lecce.

Í umfjöllun sænskra fjölmiðla í gær kom fram að þar sem Arnór hefði ekki spilað eins mikið með Malmö á síðasta tímabili og næstu tvö ár á undan væri ekki ólíklegt að hann vildi breyta til en hann á ár eftir af samningi sínum við sænsku meistarana.

„Að sjálfsögðu vilja allir spila eins mikið og mögulegt er, og það á líka við um mig. Ég tel að ég hafi margt fram að færa fyrir liðið en svo er það þjálfarans að ákveða hverjir spila. Maður berst fyrir sínu á hverjum degi og nú er framundan nýtt tímabil með nýjum tækifærum. Þá setur maður undir sig höfuðið og leggur hart að sér," segir Arnór í viðtali við Fotbollskanalen í dag.

Um áhuga annarra félaga sagði Njarðvíkingurinn: „Já, það eru félög sem hafa áhuga. En ég er fyrst og fremst leikmaður Malmö, er með samning um eitt ár enn og einbeiti mér að Malmö, sem mér þykir mjög vænt um. Svo þurfa viðkomandi félög líka að ná samkomulagi við Malmö. Ég segi ekki bara já við hverju sem er. Það verður að vera gott fyrir mig og líka gott fyrir Malmö. Ég hef velt þessu fyrir mér en ég virði minn samning og ég virði Malmö eins og alltaf. Svo sjáum við til hvað gerist."

Hinn íslenskættaði Jon Dahl Tomasson er þjálfari Malmö og Arnór kveðst ekki hafa rætt málin við hann.

„Nei, ekki enn. Við hittumst fljótlega og förum yfir hlutina. En það er ekkert neikvætt á milli okkar, virðingin er gagnkvæm," sagði Arnór og vildi ekki ræða frekar hvort til umræðu hefði komið að gera nýjan samning við Malmö. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert