Skagamaðurinn snýr aftur á fornar slóðir

Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Bergmann Sigurðarson knattspyrnumaður frá Akranesi er á leið til norska félagsins Molde á nýjan leik eftir stutta viðdvöl hjá Lilleström.

Romeriks Blad skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Birni að hann hafi fengið tilboð frá Molde sem hann hefði ekki getað hafnað. Félögin séu langt komin í viðræðum sín á milli.

Björn kom fyrst til Molde árið 2014 í láni frá Wolves frá Englandi. Hann varð norskur meistari með liðinu það ár.

Hann sneri aftur til félagsins sumarið 2016 þegar hann var laus allra mála hjá Wolves og lék með liðinu í hálft annað ár. Björn átti sérstaklega góðu gengi að fagna árið 2017 þegar hann var valinn einn af fjórum bestu leikmönnum norsku úrvalsdeildarinnar og varð þriðji markahæstur í deildinni með 14 mörk í 25 leikjum. Hann var þá fyrirliði Molde í nokkrum leikjum en liðið varð í öðru sæti deildarinnar.

Björn fór frá Molde til Rússlands og lék þar með Rostov í þrjú ár en var um skeið á láni hjá APOEL á Kýpur á síðasta tímabili. Í ágúst 2020 kom hann svo til liðs við Lilleström, sem hann hafð áður leikið með á árunum 2009 til 2012 og tók þátt í að koma liðinu upp úrvalsdeildina en missti af mörgum leikja liðsins vegna meiðsla.

Björn verður þrítugur í febrúar og á að baki 17 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Molde varð norskur meistari með yfirburðum árið 2019 en varð að sætta sig við silfurverðlaunin 2020 eftir að Bodö/Glimt stakk alla af í baráttunni um norska meistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert