Liverpool á leið til Búdapest

Mohamed Salah í baráttunni við Hwang Hee-chan í fyrri leik …
Mohamed Salah í baráttunni við Hwang Hee-chan í fyrri leik liðanna í Búdapest í síðasta mánuði. AFP

Allt bendir til þess að seinni leikur Liverpool og RB Leipzig í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í knattspyrnu muni fara fram í Búdapest.

Fyrri leikur liðanna, sem lauk með 2:0-sigri Liverpool, fór fram á Puskás-vellinum í Búdapest þar sem enska liðið gat ekki ferðast til Þýskalands vegna sóttvarnareglna þar í landi.

Leikmenn RB Leipzig munu þurfa að fara í tíu daga sóttkví, fari svo að félagið ferðist til Englands, fyrir síðari leik liðanna sem fer fram 10. mars næstkomandi.

Times greinir frá því að leikurinn muni fara fram í Búdapest líkt og fyrri leikurinn en upphaflega átti leikurinn að fara fram á heimavelli Liverpool, Anfield.

mbl.is