Evrópumeistararnir töpuðu í mögnuðum leik

Kylian Mbappé skoraði tvö mörk fyrir PSG.
Kylian Mbappé skoraði tvö mörk fyrir PSG. AFP

Frakklandsmeistarar PSG standa vel að vígi eftir fyrri leik sinn við Bayern München í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta því liðið gerði sér lítið fyrir og vann 3:2-útisigur í ótrúlegum leik í Bæjaralandi í kvöld. Liðin mættust í úrslitaleik keppninnar á síðustu leiktíð og þá hafði Bayern betur. 

PSG byrjaði af gríðarlegum krafti því Kyliam Mbappé kom liðinu yfir strax á þriðju mínútu og á 28. mínútu var staðan orðin 2:0 eftir að Marquinhos skoraði. Stórstjarnan Neymar lagði upp bæði mörkin.

Bayern er ekki þekkt fyrir að gefast upp og Eric Choupo-Moting minnkaði muninn á 37. mínútu og var staðan eftir viðburðaríkan fyrri hálfleik 2:1. Sú staða breyttist í 2:2 á 60. mínútu þegar Thomas Müller skoraði og bjuggust flestir við sigurmarki hjá Bayern.

Sú varð ekki raunin því Mbappé skoraði sitt annað mark og þriðja mark PSG á 68. mínútu og gulltryggði liðinu ótrúlegan sigur. Liðin mætast í seinni leiknum í París næstkomandi þriðjudag.

mbl.is