Kostar 78 milljónir punda

Jadon Sancho er til sölu fyrir rétta upphæð í sumar.
Jadon Sancho er til sölu fyrir rétta upphæð í sumar. AFP

Jadon Sancho, sóknarmaður þýska knattspyrnufélagsins Borussia Dortmund, má yfirgefa þýska félagið í sumar fyrir 78 milljónir punda.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Sancho var sterklega orðaður við brottför frá félaginu síðasta sumar.

Manchester United lagði fram nokkur tilboð í leikmanninn sem öllum var hafnað en Dortmund vildi fá í kringum 100 milljónir punda fyrir hann.

Þýska félagið er hins vegar tilbúið að lækka verðmiðann á leikmanninum í sumar en hann er samningsbundinn Dortmund til sumarsins 2023.

Sancho, sem er 21 árs gamall, hefur verið sterklega orðaður við bæði Liverpool og Manchester United að undanförnu.

Sóknarmaðurinn hefur lagt upp níu mörk og skorað önnur sex í 22 byrjunarliðsleikjum í þýsku 1. deildinni á tímabilinu.

mbl.is