Robben gefur kost á sér

Arjen Robben í landsleik gegn Íslandi í Amsterdam árið 2015. …
Arjen Robben í landsleik gegn Íslandi í Amsterdam árið 2015. Leikur sem er sennilega ekki í sérstöku uppáhaldi hjá honum. AFP

Gamla brýnið Arjen Robben gefur kost á sér í landslið Hollands sem leikur í lokakeppni EM í knattspyrnu í sumar. 

Robben sagði frá þessu þegar fjölmiðlamenn ræddu við hann í gær en ekkert liggur fyrir um hvort ennþá sé eftirspurn eftir Robben hjá landsliðinu. 

Robben er 37 ára gamall og leikur nú með Groningen, liðinu sem Jóhannes Harðarson lék með í upphafi aldarinnar. Robben lék sinn fyrsta leik í átta mánuði í gær eftir að hafa glímt við þrálát meiðsli. 

Hann lét sig ekki muna um að leggja upp tvö mörk í leiknum en Groningen vann Emmen 4:0 í hollensku úrvalsdeildinni. Fjölmiðlamenn voru svo upprifnir yfir frammistöðunni að þeir spurðu hvort hann myndi gefa kost á sér í landsliðið í sumar og lofaði Robben því að svarið yrði já ef landsliðsþjálfarinn Frank de Boer myndi hafa samband. 

„En við verðum að vera raunsæir. Ég þyrfti að vera í almennilegu leikformi og geta nýst liðinu. Við sjáum hvað setur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert