Úrslitaleikurinn færður til Portúgals?

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar gæti verið færður til Portúgals, annað hvort á …
Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar gæti verið færður til Portúgals, annað hvort á heimavöll Benfica eða Porto. AFP

Búið er að ákveða að færa úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu frá Istanbúl eftir að Tyrkland var sett á rauðan lista Englands, sem þýðir að áhangendur Chelsea og Manchester City mættu ekki ferðast og horfa á lið sín spila.

Stuðningsmannafélag Chelsea hefur farið fram á það við UEFA að leikurinn verði færður til Englands, á Wembley-leikvanginn, og stuðningsmannahópar Man City höfðu kallað eftir því að leikurinn yrði í það minnsta færður frá Tyrklandi.

Ensk stjórnvöld og UEFA hafa sem stendur ekki komist að samkomulagi um að færa leikinn til Englands.

Nú hefur Portúgal komið upp úr hattinum sem æskilegt land fyrir úrslitaleikinn að fara fram í, en Portúgal er á grænum lista Englands og áhangendur mættu því ferðast til Portúgals ef leikurinn færi fram þar hinn 29. maí næstkomandi. 4.000 miðar ættu þá að vera í boði fyrir stuðningsmenn hvors liðs.

Drekavöllurinn í Portó hefur verið nefndur í því samhengi og einnig er mögulegt að úrslitaleikurinn fari fram annað árið í röð á heimavelli Benfica í Lissabon, þótt engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin ennþá.

mbl.is