Fyrsti heili leikurinn í eitt og hálft ár

Eden Hazard bar fyrirliðaband Belga í sigrinum gegn Finnum í …
Eden Hazard bar fyrirliðaband Belga í sigrinum gegn Finnum í gær. AFP

Eden Hazard, vængmaður belgíska landsliðsins í knattspyrnu og Real Madríd, lék allan leikinn í 2:0 sigri Belgíu gegn Finnlandi í B-riðli Evrópumótsins í gær.

Undir eðlilegum kringumstæðum teldist það ekki fréttnæmt, enda einn hæfileikaríkasti leikmaður heims.

En það er þó svo að um var að ræða fyrsta leikinn sem honum tekst að spila allar 90 mínúturnar í keppnisleik frá því 22. nóvember 2019, fyrir meira en einu og hálfu ári.

Frá því að Hazard gekk til liðs við Real Madríd sumarið 2019 hefur hann glímt við þrálát meiðsli og átt í miklum vandræðum með líkamlegt form sitt.

Hefur hann aðeins náð að spila 30 deildarleiki af 76 á þessum tveimur árum sem hann hefur verið í herbúðum Madrídinga, og lék engan landsleik fyrir Belgíu á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert