Sterling hetja Englands – Króatar hirtu annað sætið

Raheem Sterling fagnar sigurmarki sínu gegn Tékklandi.
Raheem Sterling fagnar sigurmarki sínu gegn Tékklandi. AFP

Raheem Sterling reyndist hetja enska landsliðsins í knattspyrnu þegar það mætti Tékklandi í D-riðli Evrópumóts karla á Wembley í London í kvöld.

Leiknum lauk með 1:0-sigri enska liðsins en Sterling skoraði sigurmark Englands strax á 12. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Jack Grealish.

Þá unnu Króatar 3:1-sigur gegn Skotum í hinum leik riðilsins á Hampden Park í Glasgow þar sem Nikola Vlasic kom Króötum yfir á 17. mínútu.

Callum McGregor jafnaði metin fyrir Skotland á 42. mínútu áður en þeir Luka Modric og Ivan Perisic skoruðu sitt markið hvor fyrir Króata í síðari hálfleik.

England og Króatía fara því áfram úr D-riðli en England lýkur keppni í efsta sæti riðilsins með 7 stig og Króatar enda í öðru sæti með 4 stig.

Tékkland endar í þriðja sæti riðilsins með 4 stig en er komið áfram í útsláttakeppnina sem eitt liða með bestan árangur í þriðja sæti.

Skotar eru hins vegar úr leik en þeir ljúka keppni í neðsta sæti D-riðils með 1 stig.

Luka Modric og þjálfarinn Zlatko Dalic fagna í leikslok.
Luka Modric og þjálfarinn Zlatko Dalic fagna í leikslok. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert