„Aldrei séð neitt þessu líkt“

Stuðningsmenn Englands fyrir utan Wembley fyrir leikinn í gærkvöldi.
Stuðningsmenn Englands fyrir utan Wembley fyrir leikinn í gærkvöldi. AFP

Enska knattspyrnusambandið mun rannsaka til hlítar þá einstaklinga sem reyndu að brjóta sér leið inn á Wembley-leikvanginn fyrir úrslitaleik Englands og Ítalíu í gærkvöldi og leitast við að banna þá.

Stuðningsmenn slógust við öryggisverði og lögreglumenn er þeir reyndu að brjótast í gegnum járngirðingar.

„Við erum með frábært öryggisteymi á leikvanginum og það hefur aldrei séð neitt þessu líkt. Það var stór hópur af fylliröftum sem reyndi að brjóta sér leið inn. Við erum að sjá um leikvang, ekki rammgert vígi.

Ég verð að biðja þá stuðningsmenn sem þetta hafði áhrif á og teymið sem þurfti að fást við þetta afsökunar,“ sagði Mark Bullingham, framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandsins, í yfirlýsingu.

Hann bætti því við að knattspyrnusambandið myndi vinna náið með lögreglunni með það fyrir augum að banna hvern þann sem braut sér leið inn og til þess að koma í veg fyrir að svona atvik kæmi upp aftur.

Upphaflega sagði lögreglan í Lundúnum að enginn einstaklingur án miða hefði náð að brjóta sér leið inn á leikvanginn, en í síðari yfirlýsingu greindi hún frá því að nokkrir hefðu komist inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert