Sigur í fyrsta leik Elíasar

Elías Már Ómarsson gekk til liðs við Nimes í vikunni.
Elías Már Ómarsson gekk til liðs við Nimes í vikunni. Ljósmynd/Nimes

Elías Már Ómarsson lék sinn fyrsta leik fyrir franska B-deildarliðið Nimes þegar liðið hafði nauman sigur á Dijon í annarri umferð deildarinnar í dag.

Nimes fékk vítaspyrnu á 26. mínútu þar sem Cheick Traoré fékk beint rautt spjald fyrir að handleika knöttinn viljandi innan teigs. Yassine Benrahou steig á vítapunktinn og skoraði.

Einum færri jöfnuðu Dijon-menn hins vegar metin á 79. mínútu þegar Roger Assalé skoraði eftir undirbúning Yassines Benzia.

Aðeins tveimur mínútum síðar lagði Benrahou hins vegar upp sigurmark Nimes þegar Lamine Fomba skoraði og tryggði Nimes 2:1-sigur.

Elías Már var í byrjunarliði Nimes, sem er með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina, og var tekinn af velli á 65. mínútu í stöðunni 1:0.

Sigurinn var kærkominn þar sem bæði þessi lið eru talin líkleg til þess að komast upp í frönsku 1. deildina, en þaðan féllu þau bæði á síðasta tímabili.

mbl.is