Mikael skoraði annan leikinn í röð

Mikael Anderson hefur byrjað frábærlega hjá AGF.
Mikael Anderson hefur byrjað frábærlega hjá AGF. mbl.is/Kristinn Magnússon

Draumabyrjun Mikaels Andersons hjá AGF í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnunni heldur áfram. Í kvöld skoraði Mikael í öðrum leiknum sínum í röð þegar hann gulltryggði 2:0 sigur liðsins gegn Silkeborg í deildinni.

Mikael skoraði einnig í sínum fyrsta leik fyrir félagið fyrir rúmri viku, sigurmarkið í 1:0 sigri gegn Vejle.

Það var fyrsti sigur AGF í deildinni á tímabilinu og hefur koma Mikaels því virkað sem vítamínsprauta fyrir Árósaliðið, enda hann búinn að skora í báðum leikjum sínum sem hafa svo báðir unnist.

Staðan var markalaus lengi vel í leiknum í kvöld, eða allt þar til Yann Bisseck kom gestunum í AGF á bragðið á 71. mínútu.

Tveimur mínútum síðar tók Jón Dagur Þorsteinsson hornspyrnu fyrir AGF, leikmenn Silkeborg reyndu að hreinsa hana frá en boltinn barst til Mikaels sem skoraði með góðu vinstri fótar skoti.

Staðan þar með orðin 2:0, sem reyndust lokatölur.

Mikael lék fyrstu 88 mínúturnar og Jón Dagur lék allan leikinn fyrir AGF. Þá lék Stefán Teitur Þórðarson fyrstu 74 mínúturnar fyrir Silkeborg.

AGF fer með sigrinum upp úr 11. sæti deildarinnar í 9. sætið og er með 9 stig að níu umferðum loknum. Silkeborg er áfram í 6. sæti með 11 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert