Verður bólusetning skilyrði á HM?

Leikvangurinn í Ar-Rayyan er eitt þeirra glæsimannvirkja sem hafa risið …
Leikvangurinn í Ar-Rayyan er eitt þeirra glæsimannvirkja sem hafa risið í Katar síðustu ár vegna HM 2022. AFP

Forráðamenn heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í Katar á næsta ári íhuga að gera bólusetningu fyrir kórónuveirunni að sérstakri kröfu fyrir leikmenn sem taka þátt á mótinu.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu en mótahaldarar hafa nú þegar gefið það út að allir þeir sem ferðast til landsins til þess að fylgjast með mótinu verði að vera bólusettir.

Margir knattspyrnumenn eru alfarið á móti bólusetningu vegna veirunnar en fari svo að bólusetning verði skilyrði á mótinu gætu margar af stærstu stjörnum heims verið fjarverandi í Katar.

Þá hefur það einnig verið í umræðunni að allir sem taka þátt séu með tvöfaldan skammt af bóluefni en margir leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar sem dæmi hafa látið sér nægja að fá einn skammt.

Heimsmeistaramótið fer fram dagana 21. nóvember til 18. desember á næsta ári en alls taka 32 lið frá fimm eða sex heimsálfum þátt í mótinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert