Gerum ekki úlfalda úr mýflugu

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska félagsins Liverpool, segir að slakur varnarleikur liðsins gegn Brentford í úrvalsdeildinni um síðustu helgi valdi honum ekki áhyggjum.

Liverpool gerði 3:3 jafntefli gegn nýliðum Brentford í Lundúnum eftir að hafa aðeins fengið á sig eitt mark í deildinni í leikjunum fimm á undan. Klopp örvæntir þó ekki.

„Við vörðumst ekki eins vel og við getum þannig að við þurfum að bæta okkur. Við gerum ekki úlfalda úr mýflugu en við verðum að bregðast við. Þetta er ekki tími til þess að hafa áhyggjur en við erum búnir að ræða þetta og við vitum að svona getum við ekki gert hlutina.

Við höfum farið yfir þessi mál og verðum að sýna það á morgun [í kvöld],” sagði Klopp á blaðamannafundi í gær fyrir leik liðsins gegn Porto í Portúgal í B-riðli Meistaradeildar Evrópu, sem hefst klukkan 19 í kvöld.

Liverpool vann fyrsta leik sinn í riðlinum gegn AC Milan fyrir tæpum tveimur vikum og vill Klopp halda góðri byrjun liðsins áfram.

„Þetta er erfiður riðill og við ættum ekki að sóa neinum tíma,“ sagði hann.

mbl.is