Klopp strunsaði af blaðamannafundi

Jürgen Klopp veifar eftir sigurinn í Madríd í gærkvöldi.
Jürgen Klopp veifar eftir sigurinn í Madríd í gærkvöldi. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, strunsaði af blaðamannafundi eftir frækinn 3:2 sigur liðsins gegn Atlético Madríd þar í borg í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi þar sem honum þótti spænskur blaðamaður dónalegur.

Athygli vakti að Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético, brunaði beint inn í búningsklefa þegar lokaflautið gall án þess að taka í höndina á Klopp og þakka fyrir leikinn eins og venja er eftir leiki.

Klopp virtist hissa á þessu og benti á eftir Simeone og virtist svo rétta útreidda hönd í kaldhæðni í átt að Simeone þegar hann var þegar flúinn af hólmi.

Spænskur blaðamaður var þess fullviss um að Klopp væri reiður yfir því að Simeone hafi ekki viljað taka í höndina á honum og spurði af hverju Klopp hafi reiðst.

„Af hverju var ég reiður? Ég er ekki það mikill fáviti að þú getir spurt svona spurningar. Ég var ekki vitund reiður.

Skoðaðu þetta betur. Ég ímynda mér að þú viljir gera frétt úr þessu en ég vildi taka í höndina á honum en hann vildi það ekki. Á þessu augnabliki skil ég af hverju hann hljóp inn,“ sagði Klopp.

Hann beindi þá orðum sínum að blaðamanninum: „Hann er tilfinningaríkur, ég er tilfinningaríkur og þú ert ekki góð manneskja því þú vilt gera frétt úr þessu.

Þú sagðir að ég hafi verið reiður, hvenær var ég reiður? Nú er ég reiður vegna spurningar þinnar, láttu ekki svona.“

Blaðamanninum sagðist þá vera fúlasta alvara. Klopp svaraði þá: „Já, já,“ strunsaði af blaðamannafundinum og tók ekki við fleiri spurningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert