Skoraði nokkrum tímum eftir alvarlegt bílslys

Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skoski varnarmaðurinn Sam Denham skoraði eitt marka Brechin City í 2:1 sigri liðsins á Haddington Athletic í skosku bikarkeppninni í knattspyrnu karla á laugardag, aðeins örfáum klukkustundum eftir að hafa lent í alvarlegu bílslysi.

Á leið sinni í leikinn í Brechin lenti hinn 19 ára gamli Denham ásamt liðsfélaga sínum í slysinu.

„Það er ansi merkilegt að hann var dreginn úr bílnum nokkurn veginn ómeiddur og það sem er honum til gífurlegs sóma, sagðist hann tilbúinn til þess að spila leikinn í bikarnum gegn Haddington.

Hann lék ekki aðeins allar 90 mínúturnar, heldur skoraði hann líka sitt fyrsta mark í meistaraflokki, sem hjálpaði City að vinna leikinn,“ sagði í tilkynningu á twitteraðgangi Brechin City.

Denham er í láni frá skoska úrvalsdeildarfélaginu St. Johnstone, en Brechin leikur í fimmtu efstu deild þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert