Böðvar og félagar í umspil eftir dramatík

Böðvar Böðvarsson er kominn í umspil með Helsingborg.
Böðvar Böðvarsson er kominn í umspil með Helsingborg. Ljósmynd/Kamil Swirydowicz

Helsingborg tryggði sér sæti í umspili um sæti í efstu deild Svíþjóðar í fótbolta með 2:2-jafntefli á heimavelli gegn Västerås í lokaumferðinni í dag.

Västerås var með 2:0-forystu í hálfleik og stefndi allt í að Helsingborg myndi sitja eftir með sárt ennið. Charli Weberg minnkaði hinsvegar muninn á 75. mínútu og níu mínútum síðar skoraði Anthony van den Hurk og tryggði Helsingborg eitt stig, sem nægði til að enda í þriðja sæti og fara í umspil.

Böðvar Böðvarsson lék allan leikinn með Helsingborg en bakvörðurinn hefur leikið 27 leiki með liðinu á leiktíðinni.

Bjarni Mark Antonsson lék allan leikinn með Brage er liðið vann 2:1-útisigur á Falkenberg. Með úrslitunum gulltryggði Brage sér sæti í deildinni að ári, en liðið hefur verið í fallbaráttu á leiktíðinni. Bjarni lék 22 leiki á tímabilinu og skoraði eitt mark. 

Þá lék Alex Þór Hauksson allan leikinn með Öster í 2:1-heimasigri á Akropolis. Alex og félagar enda í fimmta sæti. Alex lék 17 leiki á leiktíðinni og skoraði fjögur mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert