Mun enda ferilinn á Íslandi

Viðar Örn Kjartansson er samningsbundinn Vålerenga í Noregi.
Viðar Örn Kjartansson er samningsbundinn Vålerenga í Noregi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðar Örn Kjartansson, leikmaður norska knattspyrnufélagsins Vålerenga og íslenska landsliðsins, ætlar sér að ljúka ferlinum á Íslandi. Þetta tilkynnti hann í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun í samtali við Valtý Björn Valtýsson.

Viðar Örn, sem er 31 árs gamall, er uppalinn á Selfossi en hélt úr í atvinnumennsku árið 2014 eftir frábært tímabil með Fylki í efstu deild.

Hann hefur leikið með liðum á borð við Jiangsu Sainty í Kína, Malmö og Hammarby í Svíþjóð, Maccabi Tel Aviv í Ísreal, Rostv og Rubin Kazan í Rússlandi og Yeni Malatyaspor í Tyrklandi en er nú farinn að huga að heimferð.

„Ég er bara að koma mér aftur af stað, hægt og rólega, eftir meiðsli,“ sagði Viðar Örn.

„Planið var að ég myndi bara hvíla út restina af tímabilinu þar sem leikirnir sem við eigum eftir skipta engu máli þannig séð og ég spila því ekki meira á leiktíðinni.

Ég sá það alltaf fyrir mér að koma heim og ljúka ferlinum þar og ég hef alveg pælt í því að koma heim en það er bara ekki í mínum höndum eins og staðan er í dag þar sem ég er samningsbundinn Vålerenga til næstu tveggja ára.

Þeir eru ekki að fara sleppa mér bara sí svona en ég skal alveg viðurkenna það að ég er spenntur að koma heim. Það gæti líka alveg gerst að ég endi einhversstaðar allt annarsstaðar í Evrópu, maður veit aldrei, en ég mun enda ferilinn heima á Íslandi, bætti Viðar Örn við.

mbl.is