Eriksen æfir hjá félagi Arons

Christian Eriksen í leiknum örlagaríka gegn Finnlandi í sumar.
Christian Eriksen í leiknum örlagaríka gegn Finnlandi í sumar. AFP

Christian Eriksen, danski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, hefur hafið æfingar á ný eftir langa hvíld vegna hjartastoppsins sem hann varð fyrir í leik Dana og Finna í lokakeppni Evrópumótsins á Parken í sumar.

Hann fékk gangráð við hjartað og má af þeim sökum ekki spila í ítölsku A-deildinni, þar sem hann er leikmaður Inter Mílanó.

Eriksen er nú kominn á heimaslóðir í Óðinsvéum á dönsku eyjunni Fjóni og æfir þar hjá sínu uppeldisfélagi, OB, en með liðinu leikur íslenski landsliðsmaðurinn Aron Elís Þrándarson.

„Eriksen hafði samband við okkur og æfir nú upp á eigin spýtur. Þetta er mjög eðlilegt fyrir hann, því hann lék hér í yngri flokkunum og býr stutt frá okkur. Við erum afar ánægð með að geta útvegað honum aðstöðu til æfinga," sagði talsmaður OB við Reuters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert