Ellefu mörk í C-riðli - Real vann stórslaginn

Erling Braut Haaland skoraði tvö.
Erling Braut Haaland skoraði tvö. AFP

Það vantaði ekki fjörið í C-riðli Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld en ellefu mörk voru skoruð í leikjunum tveimur í lokaumferðinni. Úrslitin í riðlinum voru ráðin fyrir kvöldið og gátu liðin leikið skemmtilegan sóknarleik. 

Í Þýskalandi vann Dortmund afar sannfærandi sigur á Besiktas frá Tyrklandi, 5:0. Erling Braut Haaland og Marco Reus skoruðu tvö mörk hvor fyrir Dortmund eftir að Donyell Malen skoraði fyrsta markið.

Sex mörk voru skoruð í Amsterdam þar sem Ajax vann 4:2-sigur á Sporting frá Portúgal. Sébastian Haller kom Ajax yfir á 8. mínútu en Nuno Santos jafnaði fyrir Sporting á 22. mínútu. Hollenska liðið var hinsvegar með 2:1-forskot í hálfleik eftir að Antony skoraði á 42. mínútu.

David Neres bætti við þriðja markinu á 58. mínútu og Steven Berguis því fjórða á 62. mínútu. Bruno Tabata lagaði stöðuna fyrir Sporting á 78. mínútu. Ajax vinnur riðilinn með 18 stig, fullt hús stiga. Sporting og Dortmund koma þar á eftir með níu, en Sporting var með betri úrslit innbyrðis og fer því áfram og Dortmund í Evrópudeildina. Besiktas rekur lestina, án stiga.

Í D-riðli voru Real og Inter þegar komin áfram er þau mættust í höfuðborg Spánar. Real vann 2:0-sigur en Toni Kroos skoraði fyrra markið á 17. mínútu og Marco Asensio annað markið á 79. mínútu.

Í sama riðli gerðu Sheriff og Shakhtar Donetsk 1:1-jafntefli. Fernando kom Sheriff yfir en Boban Nikolov jafnaði fyrir Shakhtar og þar við sat. Real vinnur riðilinn með 15 stig, Inter hafnar í öðru sæti með 10 stig og Sheriff fer í Evrópudeildina með sjö stig í þriðja sæti. Shakhtar rekur lestina með tvö stig.

Real Madrid vann stórveldaslaginn.
Real Madrid vann stórveldaslaginn. AFP
mbl.is