Missti af leik í fyrsta sinn á fjórum árum

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir með viðurkenningu sem hún fékk á dögunum …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir með viðurkenningu sem hún fékk á dögunum fyrir að vera valin maður leiksins í leik með Orlando Pride í bandarísku atvinnudeildinni. Ljósmynd/Orlando Pride

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir landsliðskona í knattspyrnu missti í nótt í fyrsta skipti af leik með liði sínu í bandarísku atvinnudeildinni eftir að hún kom þangað fyrir rúmlega fjórum árum.

Gunnhildur var allan tímann á varamannabekk Orlando Pride þegar lið hennar vann North Carolina Courage, 2:1, á útivelli í nótt.

Fram að því hafði hún spilað alla 75 leiki sinna liða í deildinni frá því hún kom til liðs við Utah Royals fyrir tímabilið 2018. Þar spilaði hún alla 48 leiki liðsins á tveimur árum en keppni í deildinni féll síðan niður árið 2020. Gunnhildur var hluta þess árs í láni hjá Val.

Hún gekk síðan til liðs við Orlando Pride fyrir tímabilið 2021 og lék alla 24 leiki liðsins á síðasta ári. Gunnhildur hafði spilað alla þrjá leikina á þessu tímabili og skorað eitt mark þegar að því kom að hún kom ekki við sögu í leiknum í nótt.

Það er fágætt afrek að spila svona lengi og samfellt í einni af sterkustu deildum heims í kvennafótboltanum.

Gunnhildur varð í byrjun tímabilsins áttunda íslenska konan til að spila 300 deildaleiki á ferlinum og hún er nú sjöunda leikjahæst frá upphafi með 302 leiki í Bandaríkjunum, Ástralíu, Noregi og á Íslandi.

Lið Orlando Pride hefur byrjað tímabilið vel og er í öðru sæti á eftir San Diego Wave með sjö stig úr fyrstu fjórum leikjum sínum. Liðum í deildinni var fjölgað úr tíu í tólf fyrir þetta tímabil og er San Diego Wave annað nýju liðanna, stofnað á síðasta ári.

Hitt liðið er Angel City frá Los Angeles, sem einnig hefur byrjað tímabilið vel, en með því leika m.a. þær Katie Cousins og Mary Vignola sem hafa leikið með Þrótti og Val hér á landi síðustu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert