Gunnhildur náði stórum áfanga í nótt

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lék með Stjörnunni í tíu ár áður …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lék með Stjörnunni í tíu ár áður en hún fór í atvinnumennsku og tók m.a. við við fyrsta Íslandsbikar Stjörnunnar sem fyrirliði liðsins árið 2011. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, náði stórum áfanga í nótt þegar keppni í  bandarísku atvinnudeildinni, NWSL, fór af stað með fyrstu leikjum ársins 2022.

Gunnhildur var á miðjunni hjá Orlando Pride og lék allan leikinn þegar lið hennar tapaði á heimavelli gegn Gotham, 0:3.

Hún lék þar með sinn 300. deildaleik á ferlinum og er aðeins áttunda íslenska knattspyrnukonan sem nær þeim leikjafjölda.

Katrín Jónsdóttir á leikjametið en hún lék 336 deildaleiki á Íslandi, í Noregi og í Svíþjóð. Á eftir henni koma Hólmfríður Magnúsdóttir, Sif Atladóttir, Sandra Sigurðardóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Guðbjörg Gunnarsdóttir, Þórunn Helga Jónsdóttir og nú Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir með 300 leiki.

Gunnhildur hefur náð þessum leikjafjölda með níu félagsliðum í fjórum löndum en hún hefur leikið með Stjörnunni og Val á Íslandi, Arna-Björnar, Grand Bodö, Stabæk og Vålerenga í Noregi, Adelaide í Ástralíu og með Utah Royals og Orlando Pride í Bandaríkjunum.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lék með Val í láni frá Utah …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lék með Val í láni frá Utah Royals hluta tímabilsins 2020 þegar keppni lá niðri í Bandaríkjunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flesta leikina hefur hún leikið með Stjörnunni, 119 talsins, 48 með Utah Royals, 43 með Stabæk, 21 með Vålerenga, 14 með Arna-Björnar, 11 með Grand Bodö, 11 með Adelaide, 8 með Val og nú 25 með Orlando Pride.

Gunnhildur, sem er 33 ára gömul, hefur leikið hvern einasta deildaleik sinna liða síðan hún kom til Bandaríkjanna en þar er hún að hefja sitt fjórða tímabil, fimmta ef kóvid-árið 2020 er talið með en þá lá deildakeppnin þar í landi alveg niðri.

mbl.is