Þorleifur þakkaði traustið með sínu fyrsta marki

Þorleifur Úlfarsson (t.h.) í leik með Breiðabliki síðasta sumar.
Þorleifur Úlfarsson (t.h.) í leik með Breiðabliki síðasta sumar. Ljósmynd/Jón Helgi Pálmason

Þorleifur Úlfarsson fékk tækifæri í byrjunarliði Houston Dynamo í MLS-deildinni í knattspyrnu í fyrsta sinn í nótt og þakkaði traustið með því að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið í öruggum 3:0-útisigri á LA Galaxy.

Sebastián Ferreira kom Houston yfir strax á 11. mínútu og lagði svo upp mark fyrir Tyler Pasher á 58. mínútu.

Fjórum mínútum síðar, á 62. mínútu, lagði Ferreira svo upp mark fyrir Þorleif. Þorleifur fór þá laglega með boltann í vítateig LA Galaxy, lagði hann fyrir sig og skoraði með góðu vinstri fótar skoti.

Þorleifur var að vonum ánægður með sitt fyrsta mark í atvinnubolta og fékk gult spjald fyrir að fagna með því að fara úr keppnistreyju sinni.

Hann lék fyrstu 70 mínúturnar fyrir Houston á vinstri kantinum í nótt.

Houston er eftir sigurinn í 13. sæti MLS-deildarinnar.

mbl.is