Fyrsti kvenkyns dómarinn í A-deild karla

Maria Sole Ferrieri Caputi.
Maria Sole Ferrieri Caputi. AFP

Hin ítalska Maria Sole Ferrieri Caputi verður á næsta tímabili fyrsti kvenkyns dómarinn sem dæmir í A-deildinni í knattspyrnu karla í heimalandinu.

Ítalska dómarasambandið tilkynnti um ráðningu Ferrieri Caputi í gær.

Hún er 31 árs gömul og varð á síðasta tímabili fyrsta konan til að dæma leik sem innihélt ítalskt karla A-deildarlið þegar A-deildarlið Cagliari mætti B-deildarliði Cittadella í ítölsku bikarkeppninni á síðasta tímabili.

Ferrieri Caputi hefur verið hluti af dómarasambandinu og dæmt frá árinu 2007 og hóf að dæma í D-deild árið 2015. Eftir það hefur hún stöðugt unnið sig upp.

„Þetta er mjög fallegt augnablik. Það er einnig leitt að hugsa til þess að fólk sé undrandi á því að kona sé hérna.

Auðvitað er það fréttnæmt að Maria Sole verði fyrsta konan sem er hluti af dómurum ítölsku A-deildarinnar, og þetta er sögulegt augnablik, en stöðuhækkunin kemur til vegna framfara sem byggja á verðleikum, ekki forréttindum,“ sagði Alfredo Trentalange, forseti ítalska dómarasambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert