Diallo sögð þjást af hugrofi

Kheira Hamraoui og Aminata Diallo.
Kheira Hamraoui og Aminata Diallo. AFP/Franck Fife og Paul Vernon

Franska knattspyrnukonan Aminata Diallo, sem var á dögunum handtekinn í annað sinn vegna gruns um að hafa skipulagt líkamsárás á Kheiru Hamraoui, fyrrverandi liðsfélaga sinn hjá París Saint-Germain, er sögð þjást af hugrofi.

Í nóvember á síðasta ári réðust grímuklæddir menn á Hamraoui og börðu með járnrörum.

Diallo var skömmu síðar handtekin, grunuð um að hafa skipulagt árásina. Hún neitaði alfarið sök og var að yfirheyrslum loknum sleppt lausri án ákæru.

Eftir að ný sönnunargögn komu upp í málinu var hún hins vegar handtekin að nýju í þessum mánuði, grunuð um grófa líkamsárás og glæpsamlegt samsæri.

Hamraoui, sem var frá um nokkurra mánaða skeið eftir árásina, lét hafa eftir sér í nóvember síðastliðnum að svo virtist sem árásarmennirnir hafi einbeitt sér að fótunum á henni þegar þeir börðu hana með járnrörum.

Grunur leikur á að Diallo hafi skipulagt árásina á Hamraoui þar sem þeirri fyrrnefndu hafi þótt sem hún stæði í vegi fyrir framgangi ferils síns. Þær leika báðar í stöðu varnartengiliðs og var Hamraoui á undan henni í goggunarröðinni hjá PSG og franska landsliðinu.

Samkvæmt franska miðlinum RMC Sport þjáist Diallo, sem er nú án félags eftir að samningur hennar við PSG rann út í sumar, af hugrofi.

Um geðröskun er að ræða þar sem að minnsta kosti tveir aðskildir persónuleikar taka sér bólfestu í huga einnar og sömu manneskjunnar, sem hefur gjarna í för með sér tíðar minnisgloppur.

mbl.is