Fyrsti sigur Bæjara í rúmlega mánuð

Sadio Mané, Joshua Kimmich og Thomas Müller fagna marki Mané …
Sadio Mané, Joshua Kimmich og Thomas Müller fagna marki Mané í kvöld. AFP/Christof Stache

Þýskalandsmeistarar Bayern München unnu sinn fyrsta deildarleik í rúmlega mánuð þegar liðið tók á móti Bayer Leverkusen í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Leiknum lauk með 4:0-sigri Bæjara en það voru þeir Leroy Sané, Jamal Musiala, Sadio Mané og Thomas Müller sem skoruðu mörk þýsku meistaranna.

Síðasti sigur liðsins í deildinni, fyrir leik kvöldsins, kom gegn Bochum hinn 21. ágúst en Bæjarar eru með 15 stig í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum minna en topplið Union Berlín, sem á leik til góða á Bayern München.

mbl.is